Fjögur systkin hjá Samkaupum

Radmila Medic, Krambúðinni í Innri-Njarðvík

Það er ekki oft sem fjögur systkin vinna hjá sama fyrirtækinu en þannig er það hjá Radmilu Medic, 36 ára verslunarstjóra Krambúðarinnar við Tjarnabraut í Innri-Njarðvík, og systkinum hennar. Þau eru sex systkinin og fjögur þeirra starfa hjá Samkaupum. Tvær systur Radmilu vinna með henni í Krambúðinni við Tjarnabraut og bróðir þeirra er verslunarstjóri Nettó í Norðurbænum í Hafnarfirði. Vel gert!

Radmila er frá Króatíu og kom með fjölskyldu sinni til Íslands á vegum Rauða krossins sem flóttamaður árið 2000 og hefur unnið hjá Samkaupum frá 2006 eða í sautján ár – þar af frá árinu 2018 sem verslunarstjóri í Tjarnagötu.

„Ég vann áður í flugeldhúsinu á Keflavíkurflugvelli og það var ágætt og mikið að gera en systir mín vann hjá Samkaupum og sagðist ánægð þannig að ég ákvað að prófa – og hef ekki farið síðan,“ segir hún hlæjandi.

Hún segir að sumarið hafi gengið vel í Krambúðinni og það sé aukning frá því í fyrrasumar. Erlendir ferðamenn séu ekki mikið á ferðinni eftir að hótelið í hverfinu hafi verið leigt til ríkisins og lokað sem almennu hóteli.

„Við finnum fyrir miklum velvilja hjá viðskiptavinum okkar sem langflestir eru héðan úr hverfinu. Við bjóðum upp á fjölbreytt vöruval þótt búðin sé ekki mjög stór – og það eru alltaf einhver tilboð hjá okkur.“

Fjölskyldan með Rauða krossinum sem flóttamenn

Þegar fjölskylda Radmilu kom til Íslands á vegum Rauða krossins sem flóttamenn árið 2000 fluttist hún til Siglufjarðar. Radmila var þá þrettán ára og elst í systkinahópnum. Hún segir að það hafi verið fínt að búa á Siglufirði og á þessum tíma hafi þau nánast verið einu erlendu börnin í bænum.

„Siglfirðingar tóku okkur vel og við féllum vel inn í mannlífið en eftir fimm ár ákváðu mamma og pabbi að flytja til Keflavíkur þegar systur mínar voru á leið í framhaldsskóla. Þeim fannst það auðveldara vegna samgangna en Héðinsfjarðargöngin voru ekki komin á þessum tíma. Siglufjörður mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.“

Talar áberandi góða íslensku

Það er áberandi hvað Radmila talar góða íslensku en hvernig fór hún að? „Mér fannst sjálfsagt að læra hana og hugsaði sem svo að ég gæti ekki búið á Íslandi nema læra tungumálið. Ég fékk mína fyrstu kennslu í skólanum á Siglufirði og reyndi strax að lesa mikið á íslensku fyrir utan skólabækurnar. Þetta kom smám saman. Ég var líka frá upphafi óhrædd við að prófa að tala íslensku við krakkana á Siglufirði. Það hafði mikið að segja – sem og hvað ég hef umgengist mikið Íslendinga frá því við komum til landsins.“

Í verslun skiptir öllu að kunna vel við fólk

Verslunarstarfið hentar Radmilu vel. Hún segir að það sé spennandi að stilla upp ferskri og góðri búð með fullt af tilboðum – og þar sem allir reyna að gera sitt besta á hverjum degi. „Það er mjög gefandi að vinna í verslun og þjónusta viðskiptavini. Það skiptir öllu að líka við fólk, kunna á fólk og hafa ánægju af samskiptum við það.“

Hún bætir því við að hún hafi verið ánægð þegar hún sá eitt sinn í viðtali við forráðamann í bandarísku stórfyrirtæki að eitt af skilyrðunum fyrir því að fá vinnu þar væri að kunna vel við fólk. „Ein spurningin var einfaldlega hvort viðkomandi ætti auðvelt með að umgangast aðra og líkaði vel við fólk: „Do you like people?“ Það er mjög mikilvægt í þjónustustörfum að vilja vinna með fólki og kunna mannasiði. Það er ekki kennt í skólum.“

Skemmtilegra að horfa á málningu þorna

Radmila segir að helsta áhugamál sitt sé lestur og gönguferðir úti í náttúrunni – fyrir utan að verja tíma með fjölskyldunni. „Ísland er mjög fallegt land með fjölbreytta og stórbrotna náttúru. Það þarf ekki að fara langt til að njóta útiverunnar og finna kyrrðina.“

Þegar hún er spurð hvort hún stundi íþróttir eða fylgist með þeim svarar hún að bragði með glettni: „Gönguferðirnar eru mín íþrótt en áhugi minn á keppnisíþróttum er það lítill að frekar vildi ég horfa á málningu þorna á vegg en glápa á fótboltaleik í sjónvarpi,“ segir hún og skellir upp úr.

Kann vel við veðrið á Íslandi

Fjölskyldan er frá borginni Zadar í Króatíu og þar er sól og gott veður megnið af árinu. Um það hvort hún sakni veðurfarsins í Króatíu segir hún að svo sé ekki. „Ég kýs frekar að vera í fersku, tæru og kaldara loftslagi. Það er tiltölulega milt veðurfar á Íslandi yfirleitt og ég vil frekar vera í slíku loftslagi en steikjandi hita stærstan hluta ársins. Pabbi er þannig líka. Þegar við heyrum af hitabylgjum erlendis og „skrítnu veðri“ held ég að við Íslendingar séum í toppmálum en jújú, eins og öllum öðrum Íslendingum þá leiðist manni svonefnt skítaveður; hávaðarok og rigning – en almennt getum við Íslendingar verið sátt við veðrið.“

Hún segist finna sig vel á Íslandi. Maðurinn hennar sé Pólverji sem hafi búið á Íslandi um árabil og heiti Grzegorz. „Okkur líkar vel hér. Ég er orðin Íslendingur; mér finnst það. Ég finn mig á Íslandi og kýs það líf – eins og við þekkjum það – sem er hér. Ég er ekki að fara neitt,“ segir Radmila Medic, verslunarstjóri Krambúðarinnar í Innri-Njarðvík.